Welcome! Log In Create A New Profile

Advanced

READ ONLY - Archived Chatt forum - Íslenska

 
February 21, 2011 01:04PM
Martinus

Í þessum mánuði er níræður Martinus Thomsen. Hann var af fátæku fólki kominn, fæddur í Vendsyssel á Jótlandi. Þar var hann smali og ólst upp í skauti náttúrunnar. Enginn veit föðurætt hans og móðir hans dó þegar hann var ellefu ára. Hann naut lítillar skólagöngu og ólst upp hjá frænda sínum við guðsótta og ástríki. Ungur gerðist Martinus Thomsen starfsmaður hjá mjólkurbúi. Hann þótti á allan hátt venjulegur ungur maður. Samvizkusamur og nægjusamur. Þrítugur að aldri hafði Martinus unnið sig upp í skristofumannsstarf á sínu mjólkurbúi. Þrátt fyrir hversdagsleikann í framkomu þessa manns. bjó einhver óróleiki í sálinni. Hann fékk að láni hjá vini sínum búk um guðspeki, þar sem m.a. var greint frá hugleiðslu. Eitt kvöldið situr Martinus Thomsen á stól í herbergi sínu og hugleiðir efni þessarar bókar og reynir að komast í „hugleiðsluástand". Þá gerðist undrið. Hann segir sjálfur svo frá: „Ég leit beint í ásjónu einhverrar veru, sem sveipuð var einhverskonar loga. Það var líkt og Krists mynd úr blikandi morgunsól nálgaðist mig og breiddi faðminn móti mér. Ég var gjörsamlega lamaður, gat hvorki hrært legg né lið, en starði hugfanginn í ljómann, sem á næsta andartaki virtist hverfa inn í vitund mína, gagntaka hold mitt og blóð. Dásamleg sælukennd fyllti sál mína. Hið guðdómlega ljós, sem hafði tekið bústað í mér, veitti mér hæfileika til að sjá tilveruna uppljómaða í þessari birtu, sem ég hafði öðlast í vitund minni." Eftir þetta starfaði Martinus Thomsen ekki meir á mjólkur- búum. Hann segir í spjalli við Kristmann Guðmundsson í Mbl. 10. sept. 1952: „Árdegis næsta dag settist ég á sama stólinn og batt fyrir augu mín, því það var bjart í herberginu. Þá skeði það, að ég sá inn í óravíðan heim, sem varð æ bjartari og að síðustu sem eldhaf eitt af gullnu ljósi, og samtímis streymdi inn í huga minn víðtæk vitneskja um tilveruna og tær skilningur á fyrirbærum hennar. Allt sem ég beindi huganum að lá ljóst fyrir, ég skildi orsök og afleiðing alls. Í fyrstu tók þetta mig svo öfluglega, að ég varð að stritast á móti. En síðan kom þessi æðri vitund yfir mig oftar og mér skildist að ég ætti að gera aðra þátttakandi í þeirri vitneskju sem ég fékk." Nú tók Martinus að lesa sér til. Hann æfði sig í ritmennsku svo að hann gæti birt reynslu sína á læsilegu máli. Sjö ár stóð þetta sjálfsnám — þá var hann tilbúinn til starfa. Hann kaus að nota fyrra nafn sitt og kallaði sig Martinus. Hann hóf að skrifa Livets bog — Bók lífsins — í sjö þykkum bindum og birti þar sannindi sín. Síðan hefur Martinus haldið fyrirlestra og ferðast um lönd og kynnt fræði sín. Vinir hans og velunnarar komu á fót Martinus Institut í Kaupmannahöfn, og í hópi þeirra nýtir Martinus ellina til skrifta.

Étur ekki kjöt og sat í fangelsi.
Í síðustu viku var staddur hérlendis ungur maður frá Martinus Institut og flutti fyrirlestra í Reykjavík og á Akureyri. Rolv Elving heitir hann, fæddur Svíi og hefur étið grænmeti, drukkið jurtate og þess háttar síðustu tíu árin. Það kom mér því á óvart, að hann var 195 sentimetrar á hæðina, ef ekki hærri, og á allan hátt vel haldinn. Hann kom vel fyrir þessi Svíi; einn af þeirri gerðinni sem sjá jákvæðar hliðar á hverju máli. Hann trúði mér fyrir því að hann kúgaðist væri borið fyrir hann kjötmeti. Rolv Elving hafði sín fyrstu kynni af fræðum Martinusar 17 ára gamall. Ekki þarf að orðlengja að hann sannfærðist strax af rökvísi Danans og hóf nám við Martinus Institut í Höfn. í heimalandi sínu neitaði hann að gegna herþjónustu og sat inni heilan mánuð fyrir vikið. Ég átti tal við þennan sænska mann á heimili Finnbörns Finnbjörnssonar, málarameistara hér í bæ.

Finnbjörn segir frá
En fyrst. Tildrög þess, Finnbjörn málarameistari, að þú kynntist fræðum Martinusar.
— Já. Sem ungur maður heima á ísafirði hafði ég kynni af M. Simson, dönskum manni og ljósmyndara þar í bæ. Simson fannst hann vera kominn heim, þegar hann heimsótti Ísland og lifði alla tíð síðan á Ísafirði. Hann var fræðimaður í sér, Simson, og mikill skógræktarmaður sem Ísfirðingar þekkja. Hann hafði lesið af Martinusi og sagði mér frá hans fræðum. — Það var Simson sem skrifaði pésann „Hugleiðingar um vaxtakerfið og hinn skynsama ótta" og Ísrún gaf út á sinum tíma. Þar segir Simson á einum stað: „... ég hefi fyrir sjálfstæða hugsun náð því þroskastigi. sem veitir fullan skilning á tilverunni ..."
Er það svo með þig? —
Já, fræði Martinusar urðu mér strax hugstæð. Hann færir rök fyrir öllum hlutum og skýrir lífgátuna — hann skýrir tilveruna eins og hún leggur sig, og það hefur aldrei verið gert fyrri. Mér varð strax ljóst að Martinus fór með sannindi, hann færir það skýr rök fyrir öllu sem hann staðhæfir, og einmitt það gerir hann að vísindamanni. Þetta er ekki trúarsöfnuður, Martinus segir ekki: Fylgið mér! Hann veit, að þeir sem hafa til þess þroska þeir skilja hann og skynja sannindi hans, hina skortir frekari reynslu. Martinus þarf þess vegna ekki að biðja fólk að fylgja sér, því hann fer með hin eilífu sannindi. Að þessu öllu víkjum við síðar. En semsé, Martinus færir rök fyrir öllum hlutum.
— Það er einmitt það. Þú munt, Finnbjörn, hafa kafað djúpt í fræði Martinusar — Eru fleiri íslenzkir kunnugir þeim fræðum? —
Já, já. Fjöldi íslendinga þekkir til Martinusar. Og Martinus hefur verið þýddur á íslenzku. Leiftur gaf út fyrir fáum árum nokkra fyrirlestra hans í tveimur bindum: „Leiðsögn til lífshamingju" I og II, og ennfremur tvær bækur — táknmyndabækur — viðauka við Bók lífsins [Livets Bog]. Og Martinus hefur komið hingað til lands fimm sinnum, síðast 1970 og eignast hér marga vini. En ætli ég sé ekki eini núlifandi íslendingurinn, sem hef lesið Martinus allan. Vignir heitinn Andrésson, íþróttakennari, var fróðastur íslenzkra manna um Martinus. Ég hef nú tekið við af Vigni, sem einskonar tengiliður milli íslands og Martinus Institut í Kaupmannahöfn. Sendi þeim t.d. allt sem skrifað er um Martinus hérlendis og segi fréttir af gengi Martinusar hér.
- Þú og fjölskylda þín, Finnbjörn, voruð úti í Danmörku í sumar og heimsóttuð Martinus, ekki satt? — Það er akkúrat. Reyndar áttum við ekki að fá að sjá Martinus, hann einangrar sig orðið, hann á mikið starf eftir enn. En svo fór að við sáum Martinus, og eyddum einni og hálfri klukkustund af hans dýrmæta tíma. Og hún var í einu orði sagt stórkostleg þessi stund. Það lýsa henni engin orð, hún var einstæð lífsreynsla. Ég flutti Martinusi kveðjur af íslandi og honum þótti vænt um þær. Martinusi er annt um Ísland. Hann bað að heilsa íslendingum. Jú, sjáiði til. Fyrsta utanlandsferð Martinusar var hingað til lands. Árið 1952 var það, að hann kom hér á vegum Grétars og Sólveigar Fells, og hélt fyrirlestra í Guðspekifélagshúsinu. Nú 20 árum síðar kemur einn helzti lærisveinn hans til íslands, líka í sinni fyrstu utanlandsferð og stendur á sama palli í Guðspekifélagshúsinu og segir af fræðum Martinusar. Fyrir Martinusi er Ísland framtíðarland. Og í þriðju heimstyrjöldinni, sem við víkjum að síðar og verður rétt fyrir næstu aldamót, þá heldur forsjónin verndarvæng sínum yfir íslandi. Ef t.a.m. herveldi sendir hingað sprengju, þá bilar hún á leiðinni o.s.frv. íslendingar eru með þroskuðustu þjóðum heims og þess vegna heldur forsjónin verndarvæng sínum yfir okkur, því okkar hlutverk er mikilvægt í þeim heimi mannúðar sem mun rísa úr rústum þess ægilega heims, sem við lifum nú í. Við íslendingar höfum þolað svo mikið gegnum aldirnar og þess vegna erum við andvígir vopnaburði.
— Ertu viss um, nema þessi þjóð væri með mestan her, hefði hún til þess bolmagn? —
Já ég er viss um að íslendingar eru friðelskandi þjóð. Ísland er t.a.m. eina landið í heiminum, þar sem ekki er daglegur lögregluvörður hjá forseta landsins, þar sem ráðherrar geta spókað sig á götum úti án lífvarða. Og Martinus elskar ísland, þetta tæra loft og þessa fögru náttúru.

Martinus og kristnin
Nú sneri ég mér að Svíanum, Rolv Elving, og spurði: Hvers vegna kemur Martinus í heiminn nú? —
Sjáðu til. Mannfólkið er vaxið upp úr trúarbrögðunum, þeirra kenningum og hugsjónum. Við sjáum það allsstaðar, að trúin er ekki söm og áður, sífellt fleiri stólar standa auðir við guðs- þjónustur. Það er staðreynd að æðstu sannindi lífsins, trúarleg boðorð og kenningar, eru orðin að dulspeki sem blátt áfram viti bornir menn geta ekki lagt sig niður við að stunda, ellegar trúa á. Trúarbrögðin eru „snilldarlega aðhæfð" þróunarstigi þeirra manna, sem þau voru gefin. Nú er mikill hluti mannkyns vaxinn uppúr þessu þróunarstigi, nú krefjast menn staðfestingar skynseminnar á trúarbrögðunum. fjöldi manna hefur semsé misst hæfileikann til þess að trúa; eðlishvatirnar hafa látið meir eða minna undan síga fyrir vitsmunaþroskanum. Þar með hafa mennirnir öðlast hæfileika, til þess að rannsaka sjálfir. Martinus kemur í þennan heim, þeim mönnum til hjálpar, sem engan veginn geta trúað einum saman staðhæfingum, heldur vilja að skynsamleg rök standi að baki. Martinus greinir alheiminn; sem efnislegum skynfærum er ómögulegt að skynja; sem aðeins verður skynjaður með háþróaðri sálrænni skynjun. Og þess vegna kemur Martinus í þennan heim, að gefa þeim, sem hafa náð hæfilegum þroska, ljóst yfirlit yfir gerð sjálfs alheims.
— Þú talar um trúarbrögðin — hvað um kristindóminn? —
Fyrst er þess að geta, að trúarbrögðin, hin mismunandi trúarbrögð, eru eins og skip á hafi úti, sem stefna í allar áttir en koma á sama stað að landi — í hinum eilífa sannleik. En koma Jesús Krists er vendipunktur í mannkynsögunni, því kristnin boðar grunntón alheimsins, kærleikann. Kristur talaði til mannanna eins og þeir væru börn, því þeir voru á svo lágu þroskastigi. Kristur boðaði miklar þrengingar sem koma myndu yfir mennina á hinum „síðustu tímum". Þá tíma lifum við nú. Jesús Kristur boðaði fleira: „... huggarinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, hann mun kenna yður allt og minna yður á allt, sem ég hef sagt yður" — „En þegar hann, sannleiksleitandinn, kemur, mun hann leiða yður í allan sannleikann, því að hann mun ekki tala af sjálfum sér, heldur mun hann tala það sem hann heyrir, og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun vegsama mig, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt það sem faðirinn á, er mitt; fyrir því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður". „Komandi kynslóðir" sem hann talar um, það erum við, og huggarinn, sem „talar það sem hann heyrir", það er Martinus, þ.e.a.s. ekki persónan sjálf: Martinus er einskonar gluggarúða sem alheimsvitund streymir gegnum og Martinus festir á blað. Jesú Kristur vissi allt, eins og Martinus. Fólkið var einungis ekki nógu þroskað til að meðtaka sannindin og hann talaði í líkingum og fékk fólkið til að trúa. Nú er tíminn kominn, að skýra líkingarnar. Fjöldi manna er nú nógu þroskaður til þess að meðtaka hinn eilífa sannleik. Því er Martinus kominn í þennan heim. Guðdómurinn er sjálfur alheimur ...
— Hver er það sem sendir Martinus í þennan heim? —
Það er langt mál að útskýra það. En krappt sagt þá er allt lifandi í heimi hér. Smæstu agnir hafa sömu uppbyggingu og sólkerfið, sólkerfið sömu uppbyggingu og Vetrarbrautin o.s.frv. óendanlega, því heimurinn er óendanlegur. Guðdómurinn, sem talar gegnum Martinus, er eilífur og hann er alls staðar. Þar eð alheimur er óendanlegur, er Guðdómurinn hvorki andlega né líkamlega bundinn neinni stærð eða tegund. Guðdómurinn er allar stærðir og allar tegundir, og hvernig ætti hann annars að vera alvitur, algóður og almáttugur? — Hvernig gæti hann annars verið hinn eini sanni Guðdómur? — Og hvernig gæti hann annars verið „guðssonur"? — Hinn óendanlegi alheimur, það er sjálfur Guðdómurinn.
— Það er rétt, það er flókið mál. að skýra alheiminn, og hefur vafist fyrir mörgum. En víkjum lítið eitt nánar að heimsmynd Martinusar. —
Í allra helztu dráttur er kjarni hinnar kosmisku greiningar alheims á þessa leið: Alheimurinn er altæk lifandi lífheild og í krafti þessarar lífheildar á sér stað fullkomlega rökrétt sköpun- arstarf. Hinn ytri heimur, sem við lifum í er jafn lifandi og sá innri heimur er myndar líffærakerfi okkar. Við mennirnir þykjumst stórir miðað við smærri lífverur, en erum smáir miðað við stærri lífheildir svo sem sólkerfið og svo er um alla hluti; allar lífverur eru bæði það sem við köllum „stórverur" og „smáverur". Allar lífverur eru staðbundin og lifandi líffærastöð í „stórveru" sinni og þar með í þeirri heild sem allar lifandi verur mynda í sameiningu — þessi heild er eilíf og óendanleg og nær því út fyrir sérhverja efnislega stærð, sem einungis getur skapast af skynfærunum. Sú lifandi vera sem myndar hina óendanlegu og eilífu heild, það er, eins og áður sagði, sjálfur Guðdómurinn.

Vísindi eða ekki vísindi
— Eftir því sem ég kemst næst. þá gerið þið engan greinarmun á manninum og kannski svampdýri. Hvernig má það vera? —
Jú, það er rétt. Í sjálfu sér er munurinn enginn, önnur lífveran aðeins komin lengra á þróunarbrautinni ...
— Nú segja okkur vísindin, að svampdýr geti aldrei þróast til manns? —
Þú skilur ekki rétt. Þú virðist ganga með þær grillur að maðurinn sé eitthvað sérstakt hér í heimi — eitthvað ómótstæðilegt. Allar lífverur, hvort sem er svampdýr, maður, sólkerfi eða Vetrarbraut, þróast og þroskast. Svampdýrið á sinn heim, rétt eins og maðurinn á sinn heim. Fyrir svampdýrinu er maðurinn kannski það sem sólkerfið er fyrir manninum og Vetrarbrautin fyrir sólkerfinu.
— Þið kallið fræði Martinusar vísindi? —
Já. Það eru til efnisleg vísindi og andleg vísindi og munurinn á þeim er sá, að efnisvísindin taka aðeins til efnislegs skynjunarsviðs mannfólksins, en andlegu vísindin eru hinn eilífi sannleikur og lausnin á lífsgátunni. Sbr. orð Jesús Krists: Þó himinn og jörð farizt, munu orð mín standa. Raunvísindin er byrjun á birtingu sannleikans og taka einungis til efnisheimsins, hins efnislega svæðis í lausn lífsgátunnar. Vísindi Martinusar geta ekki orðið staðreyndir fyrir atbeina efnislegrar skynjunar eða rannsóknar, eins og raunvísindin. Það er aðeins fyrir innsæishæfileikann að þessar staðreyndir geta orðið alger og sönn vísindi. Einungis með hjálp vitsmunanna og að nokkru vegna þróunar mannúðarinnar geta þessi vísindi orðið að fræðikenningum fyrir þá, sem ennþá fá ekki skynjað þau með sínum innsæishæfileika.
— Það er einmitt það. Þá hverfum við frá þvi og snúum okkur að örlögum mannkyns.

Örlög mannkyns
— Mannkynið er ófullkomið. Ennþá eru mannlegu eiginleikarnir mjög vanmáttugir hjá þorra manna, en dýrslegir eiginleikar áberandi í breytni þeirra. Hinar mannlegu hneigðir birtist í mannúðlegri lagasetningu þjóðanna, hjálp til sjúkra og gamalmenna, ókeypis skólavist, spítölum o.s.frv. en allar þessar mannúðar hneigðir eru aðeins á byrjunarstigi. Dýrslegu hneigðirnar birtast í drápsþörf mannkyns og allri þeirri kúgun sem hér á hnetti ríkir. Nú á tímum myrða mennirnir og drepa ákafar en nokkru sinni fyrr, og morðvopn hafa aldrei verið fullkomnari og ógnvænlegri. Vegna dýrseðlisins á mannkynið í stöðugu stríði. Jarðneskir menn verða á engan hátt ásakaðir þótt hið dýrslega í breytni þeirra sé svo yfirgnæfandi. Þetta er þróunaratriði. Breytni þeirra tilheyrir ákveðnum ófullgerðum flokki á einu þrepi þróunarstigans. Mennirnir geta vitanlega ekki breytt í samræmi við þau þróunarstig, sem eru þeim ofar.
— Í þessu sambandi, er það rétt, að þið segið kjötát mannanna brot á fimmta boðorðinu: „Þú skalt ekki morð fremja.** Gætirðu skýrt það? —
Já, hið stórkostlega dýradráp, sem jarðneska mannkynið fremur sér til næringar, sýnir að mannkynið hefur ekki til að bera neina virka kærleikstilfinningu gagnvart dýrum. Ástandið er þannig, að mennirnir geta vel fengið það af sér að drepa dýr og éta dýr, og halda_ síðan að dýrafæðan sé þeim lífsnauðsyn. Meðan jarðneski maðurinn er ennþá svona sofandi eða meðvitundarlaus fyrir dýrunum, getur hann ómögulega orðið að manni í Guðs mynd og líkingu. Hin kosmiska hlið vitundarlífsins er ennþá dauð eða sofandi í manninum, en hún á eftir að vakna til lífsins. Það gerizt vitaskuld ekki eingöngu með því að predika nauðsyn jurtafæðu fyrir þeim mönnum, sem geta fengið af sér að drepa dýrin og neyta dýrafæðu. Þetta er algert þróunaratriði, því skyldi enginn pína sig til þess að að hverfa frá kjötáti til heilbrigðs mataræðis.
Þú sagðir mér einhvern tíma af dómsdegi — hvað verður um okkur þá? —
Örlög mannkyns í heild sinni, ráðast af örlögum allra einstakra manna jarðarinnar samanlagt. Í sérhverjum þessara einstöku ófullgerðu manna eru hinir dýrs- legu eiginleikar fyrir hendi ásamt hinum mannlegu eiginleikum. Í gegnum þessa sameiginlegu mannlegu eiginleika öðlast jarðneska mannkynið samsvarandi mannlegt karma, þ.e.a.s. björt örlög. Gegnum dýrslega eiginleika sína öðlast mannkynið samsvarandi dýrslegt karma, þ.e.a.s. myrk örlög. En hið dýrslega mun hverfa með tímanum og björtu örlögin sigra. Á þessari öld hefur mannkynið lifað tvær heimstyrjaldir eða eins og við segjum það; mannkynið hefur lifað endurkomu tveggja mikilla heimstyrjalda örlagabrauta í formi tveggja stórkostlegra heimsstyrjalda með dauða og skelfingum, pyntingum og limlestingum. Og mannkynið með breytni sinni og framleiðslu full- komnari morðvopna undirbýr nú komu þriðju heimsstyrjaldarinnar. Og sú heimsstyrjöld verður miklu hryllilegri en hinar tvær fyrri. Þriðja heimsstyrjöldin verður dómsdagur, ragnarök. Til hvers eru þessi hryllilegu hræðilegu vítistímabil, kann einhver að spyrja. Þau koma eingöngu vegna þess að þau eru algerlega óumflýjanleg. Það er alls ekki hægt að breyta mönnunum með ræðu og riti eða predikunum einum saman. Til þess að geta skilið slík tjáningarform, verða mennirnir að þróast til þeirrar gæfu. Þróun hæfileikans til að geta skilið æðri fræðslu gerizt eingöngu gegnum endurkomu hinna myrku örlagabrauta og fyrir afleiðingar hins illa. Gegnum þær þjáningar eða ragnarök sem af komu hinna myrku örlagabrauta leiða, þróast mannúðarhæfileikinn. Verurnar fá viðbjóð á stríði og ófriði. Hæfileiki þeirra til þess að geta ekki fengið af sér að gera öðrum verum neitt til miska, fer vaxandi. Eftir því sem fleiri jarðneskir menn fylla þennan flokk, verða áhrif þeirra á pólitík og samfélagsstjórn sífellt mannúðlegri og sífellt alþjóðlegri. Það eru þessir friðarins menn sem smám saman skapa hinn sanna frið í heiminum og þar með vinna að fullkomnun mannkyns í einu ríki, með eitt tungumál, með einum trúarbrögðum (andlegu vísindunum), einni hjörð og einum hirði, einni þjóð og einum Guði.
— Ég ætla ekki að biðja þig að lýsa nánar þessu „friðarins" ríki en það hefur komið fram að dómsdagur, þriðja heimsstyrjöldin, verði fyrir næstu aldamót. Er það rétt? —
Já það er rétt.
— En hvað gera Martinusarmenn, ef ekki kemur til þessarar styrjaldar?
Nú hló Svíinn. Þetta er nú ekki ákveðið uppá dag. En, já ég skil spurninguna, já það er ómögulegt að segja, hvað maður myndi gera í slíkri aðstöðu. Ég get ekkert um það sagt.
— Síðar i samtali okkar var minnst á Heklu. Ég spurði hvar Hekla kæmi i dæmið. —
Við lifum nú fyrri stríðsár, þriðja heimsstyrjöldin er á næsta leiti. Jörðin er lifandi vera og hún ókyrrist þegar maðurinn er í öllu sínu djöfullæði — kjarnorkubrölti og morðvopnasmíð. Jörðin finnur hvað er að gerazt, dómsdagur er í nánd og þess vegna eiga sér stað óvænt umbrot. Svo sem í Heklu, Saint-Helen í Bandaríkjunum og í gosinu á Kamchatkaskaga í Síberíu. Nú kvaddi ég og þakkaði Martinusarmönnum viðkynninguna. J.F.Á.

- Morgunblaðið (196 tölublað). 31. ágúst 1980. Bls 36-37. Reykjavík.Edited 1 time(s). Last edit at 02/21/2011 01:04PM by Illugi.
Subject Author Posted

Illugi February 21, 2011 01:04PMSorry, you do not have permission to post/reply in this forum.